föstudagur, maí 22, 2009

Sumar og sól!

Loksins er sumarið komið og allt farið að grænka. Okkur líður frábærlega á Árbakka og við mæðgur hlökkum til að fá Hadda alkominn heim í byrjun júní. Í fréttum er það helst að ég komst inn í mastersnám í haf- og strandsvæðastjórnun næsta vetur :) Víhúúúú!!! OG....nýr fjölskyldumeðlimur hefur litið dagsins ljós, en hún heitir Tara og er 2 ára labradortík. Læt nokkrar myndir af litla búálfnum mínum fylgja með.


Allir chillaðir í spað hérna megin :)


Tara, Eva og Åsa


Sætust

miðvikudagur, mars 25, 2009

Nýjustu fréttir

Nú er litla fjölskyldan loksins flutt inn á Árbakka og unir sér mjög vel. Við mæðgurnar og Åsa erum orðnar einsetukonur á virkum dögum þar sem pabbinn er stunginn af til Reykjavíkur í skóla.

Eva Rún dafnar vel og finnst mjög gaman í leikskólanum. Hún er auðvitað búin að vera veik meira og minna frá því að hún byrjaði, en þetta horfir nú allt til betri vegar. Í gær þegar að mamman sótti Evu á leikskólann hitti hún fyrir útklórað barn sem hafði lent í sínum fyrstu slagsmálum við skólasystur...jahérna...hún er 15 mánaða, má þetta?? Ég er farin að undirbúa mig og safna hlífðarklæðnaði fyrir unglingsárin. Hér eru nokkrar myndir af prinsessunni í leikskólanum.







þriðjudagur, febrúar 17, 2009

Alveg týnd!

Ég og Dr. B biðjumst auðmjúklega afsökunar á því að hafa horfið af yfirborði jarðar. Það þýðir þó ekki að við berum ekki ennþá sterkar tilfinningar til ykkar aðdáendur góðir, það þýðir einungis að andleysi og þreyta hafa þjáð okkur undanfarnar vikur. Nú horfir hins vegar allt til betri vegar þar sem að við munum bæði, ásamt maka og barni flytja inn í Árbakka um næstu helgi.

Ég veit ég hef lofað myndum af húsi, barni og ég veit ekki hverju undanfarið og ekki staðið við neitt. Ég ætla því engu að lofa núna, en vil benda Fésbækurnotendum á að Árbakki Víðidal er á fésbókinni og ykkur er frjálst að bæta honum við á vinalistann.

Stefni á að blogga aftur fyrr en seinna, reyni að grafa doktorinn upp til að svara þeim spurningum sem hafa borist.

kveðja
Hrabbý

þriðjudagur, desember 23, 2008

Spurt er: Afhverju er melóna ekki ber?


Til að leita svara við þessari spurningu gekk Dr. B. á fund Maori kóngsins Vanuítí á eyjunni Samanero í Kyrrahafi. Hann sagði þá hefð snemma hafa skapast að nefna þá ávexti ber, sem voru hnöttóttir (með ýmsum afbrigðum)og safaríkir. Annað skilgreiningaratriði var að ávextina væri hægt að nota í fullri stærð í ástarleikjum, án þess að setja ástundendur í teljandi hættu. Þetta ávaxtaflokkunarkerfi var fundið upp og þróað að forfeðrum hans (ættflokknum Nöttífrútavatú). Sagði hann margar konur og karla hafa slasast við þessi rannsóknarstörf og einn látið lífið svo vitað sé, en þar hafi einmitt melóna (afbrigðið Citrullus lanatus, betur þekkt sem vatsmelóna)komið við sögu. Frá þeim sorgardegi hefur þjóðflokkurinn staðið vörð um að melónur séu aldrei kallaðar ber. Meðfylgjandi mynd er af minningarskúlptúr um fórnarlamb melónunnar, hina ungu Saríme.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Afmælisstelpa!

Í dag er Eva Rún Haraldsdóttir hvorki meira né minna en eins árs gömul. Mikið rosalega líður tíminn hratt. Hún er nú farin að nánast hlaupa meðfram öllum borðum og stólum og jafnvel sleppa sér nokkur skref inn á milli. Í gær hljóp hún stofuna á enda án stuðnings. Hún er líka farin að segja öll nauðsynlegustu orðin:

mamma - sem þýðir mamma, bumba, auga og amma allt eftir því hvað hentar hverju sinni

babba - sem þýðir pabbi, nebbi, labba og bra bra

öff - voff

diddi - bangsi, tásur og allt sem á að rétta manni

datt - daTT þýðir bara datt en daaaaahhhhhhhhhhhhhhhhhtt þýðir takk :)

hæææææææææi (hægri... og vinstri líka ef út í það er farið :))

MEEEEE!!!!! - kind

Ahhhhhh - drekka

Hæ! - hæ

Ahhhhhhh.....tt - aaaaa (gott)

Fílahljóð (bwwwwwwwwwww) - fíll

...og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Ég lofa að taka myndir um helgina og birta hér í næstu viku.

Spurt er: Hvað er brekkugarðyrkja?

Hugtakið brekkugarðyrkja hefur í gegnum tíðina hlotið tvenns konar merkingu.

1)Í Vestmannaeyjum lýsir hugtakið athöfn sem á sér stað aðeins einu sinni á ári, þ.e. á sunnudagskvöldi verslunarmannahelgar. Athöfnin fer þannig fram að fjöldi fólks safnast brókalaust saman í brekku einni og snyrtir hvort annað eftir stóðlífi helgarinnar. Hárin eru svo gefin til hárkollugerðar (sjá kollu Dabba kóngs m.a.). Nærvera og söngur Árna Johnsen er til þess gerður að slökkva hverja einustu kynlöngun sem gæti sprottið við verknaðinn.

2)Annarsstaðar í heiminum lýsir hugtakið þeirri athöfn að slá hallandi grasflöt með einhvers konar grasskurðartæki (sjá mynd).



Kveðja,
Dr. B.